Hvatvísi apinn

 

Hvatvísi apinn í sjálfum mér sagði

"slettu á mannfólkið skyr"

fylltist af óróa þegar ég þagði

og þótti ég einum of kyrr.

Titrandi lófa á augun mín lagði

er lélegar móttökur fékk

skrækti af ótta og varð bitur í bragði

og baldinn í hárinu hékk

Hoppaði 

er ég reyndi að sofna 

trallaði 

fram á nótt

 

Hvatvísi apinn í sjálfum mér setti

sófann á vitlausa hlið 

af því hann fann aldrei friðnæman létti

fyrr en var kominn á ið. 

Í stöðugum asanum andlitið gretti 

og aldrei stóð þar sem hann var 

spilandi tónlist og sparkandi í knetti

spyrjandi þar til fékk svar

Hoppaði 

ef ég reyndi að sofna

dansaði

fram á nótt

 

 

Hvatvísi apinn í sjálfum mér særði 

samherja þegar hann hló 

skildi ekki hversvegna alla þá ærði 

ef að hann henti í þá snjó.

Um áhyggjur þeirra sig kollóttan kærði

og klæddist í of stóran stakk 

einum of mikill og montinn sig stærði

er múnaði allt þetta pakk.

Hoppaði 

ef ég reyndi að sofna 

djöflaðist

fram á nótt

 

Hvatvísi apinn í sjálfum mér smurði

sögur á hversdagslegt brauð

hafði ekki löngun og huglæga burði

að hjálpa mér í okkar nauð.

Þegar ég féll oní foruga skurði

fannst honum lausnin svo létt

geðillskulega og grátandi spurði 

"því gerir þú aldrei neitt rétt ?"

Og hann hoppaði 

þó ég væri að drukkna

bölvaði

í háðskum tón


Sounds of silence (Söngur án hljóða) Íslenskur texti

 

(Ef þið setjið lagið í hér að neðan - þá ættuð þið að getað raulað íslenska textan nokkuð áreynslulaust í gegn ) 


Söngur án hljóða 


Góðan daginn þunga þögn

þú sem ert þrungin hljóðri sögn

og hvíslar fagran óm í eyrun mín

elflir kraft minn er ég leita þín

og þú fyllir 

mig af kærri friðarsýn

hverja nótt

er heyri söng án hljóða


 

Ég geng í svefni sérhvern dag

sljór í takt við vélrænt slag

yfir bænum loga náhvít ljós

og  lífið gengur eins og spiladós

þegar augun sjá 

aðeins svarthvítan veruleik

verksmiðju reyk 

þá þrái söng án hljóða.


 

Ég sekk í þykkan þagnar hjúp 

sem þarflaus dropi mannhafsdjúps

ég er illa vannýtt vinnuafl

ég er vesælt smápeð valdatafls

ég er einn af þeim

sem Mammon náði á vald

í þrælahald

og þrái söng án hljóða


 

Þar sem þagnar múrinn rís

þakinn jökulköldum ís

kafna allar raddir réttlætis

rómur þeirra fyllist svartnæti

og mín orð

þau falla eins og regn

og breytast

svo í söng án hljóða.


 

Hafði gullna gróðavon

gekk að hliðum Babýlons

undan dökkum skuggum harmsins hljóp

er ég hunsaði öll neyðaróp

og ég varð einn af svefngenglum dagsins 

sem týndist inn í sjálfum sér 

í hulduher

og grátbið nú um söng án hljóða.



 


Brandarinn

 

Brandarinn var skondinn fyrir fimmtán árum síðan

og fögnuðurinn meiri er þú sagðir fólki hann

varð að glensi barnanna og létti allra líðan 

lífgaði upp dagsins önn og hressti samtímann

 

Síðan þá varð brandarinn að endurteknu efni

einhvers konar hringekju sem luralega rann

borinn fram með hafragraut og blaðraður í svefni

brúkaður hvert tómarúm ef maður hitti mann 

 

Kanntu einhvern annan?

Þessi er orðinn hálfgert hor

hann er löngu liðið vor

hann er afturfararspor

 

Núna þegar brandarinn er banvænn myglusveppur

bráðsmitandi húsasótt sem er að kæfa mig

alltaf er þú segir hann - verð klikkaðari en kleppur

og kominn er á fremsta hlunn með að myrða þig


Nammigrís.

Söngtexti við barnabók sem heitir Nammigrís- eftir Huginn Þór Grétarsson. 


Nammigrís

 

Ef snjórinn væri sykur -gatan gerð úr ís

þá- glaður myndi éta - það sem úti frís

ef þú myndir kaupa - þér karamelluföt

þá-kæmi ég í heimsókn- og æti á þau göt

 

& Því ég vil bara borða nammi - mamma 

Enda nammigrís 

 

Borða ekki sveppi og safaríka steik

en-slægist fyrir líter af jarðaberjaseik

myndi vilja sökkva - í súkkulaðifoss

og svífa gegnum ský - sem eru Candifloss

 

& viðlag

 

Frekar myndi svelta en háma í mig hakk

heimta svo af mömmu- ídýfur og snakk

Myndi eyða dögum míns drauma sumarfrís

dasaður að snarli - í nammiparadís

 

& viðlag


Velkominn í fótspor þolandans


Hvernig er að vera vofuhús?
væminn innanpíkubleikur blús
skynja sig sem stanslaust stjörnuhrap
storknað hraun og samfellt gróðatap

Finnst þér gott að fella tregatár?
takast á við huglæg sviðasár
Hafa ekki á eigin órum grip
eigra um með fælinn raunarsvip

Velkominn í fótspor þolandans
velkominn til helvítis
til hamingju með nýja herbergið
í tómarúmi vonleysis
Velkomin til liðs við taparann
til hamingju með þetta hnig
gleymdu ekki að taka töflunar
og reyndu svo að róa þig

Hvernig er að vera þjáður þræll?
þjóðfélagsins Akkilesarhæll
Eiga enga huggun harmi gegn
hrapa niður eins og steypiregn

Hvernig er að missa allan mátt?
myrkari en ísköld vetranátt
Vera orðin eitthvað víðsjárvert
vita ekki lengur hver þú ert

Ljóðið er við lag


Sigrúnarljóð


Dái þitt litríka listamannshjarta
ljúfa og einlæga fas
fjarlægu augun og brosið þitt bjarta
brothætt sem kampavínsglas.
og ég dýrka þig heitar en sólskinið
og ég þrái þitt barnslega glaðlyndi
alltaf mun elska þig draumkennda drottningin mín.

Stundum ég sé þig með hjartanu hlusta
á hugmynda-fiðrildin þín
tala við fugla og golu sem gustar
glampa sem brosandi skin.
og ég þrái þig heitar en jörðina
og ég dái þitt flekklausa sakleysi
alltaf mun elska þig draumkennda drottningin mín.

Ert epli á allsnægtartrjám
engill úr vængjuðum þrám
brú yfir glóandi gjár
og gyðja með nætursvart hár.
Alltaf mun elska þig draumkennda drottningin mín

Varnarræða skápahommans

 

 

 
þó ég hafi mök við menn 
í mínum kynlífsþrám
líki best við lostafengið 
leðurhommaklám
með g-blettinn í görninni
göndul sem er hýr
óski þess að unnustan mín
umbreytist í fýr

& þá er ég ekki hýr
ég er ekki hommi
hundrað prósent karlmaður
og gagnkynhneigður fýr
ég er ekki hýr
ég er ekki hommi
ekkert nema karlmennska í þessu holdi býr
 
þó ég kunni vel við káf
á karlmannslíkömum
fæ standpínu í sturtunni
í strákaklefunum
totti stundum tittlinga
taki menn í sleik
krefjist þess að kærastan
sé karl í ástarleik
 
& viðlag aftur
 
Ég er krónískt klæðafrík 
og kvenlegur í senn
sem vill stíga vangadans
við vöðvastælta menn
það er ekki þar með sagt
að þá sé maður hýr
og lævís laumuhommi
sem í læstum skápi býr
 
& viðlag eina ferðina enn 


 


Hótel Heróín

 

Þegar ég hóf að áletra nafnið með nál
á náfölar æðar með óljósu blindraletri
sá ekki fyrir öll þessi eftirmál
sem enduðu á almenningsklói að niðdimmum vetri
með einum of mikið- af götum á Adamsklæðum
augun mín kyrr og sprautunál í æðum

 

Alltaf er teygjan að þurfandi handlegg var þrengd
Þrunginn af spennu til útþandra æða ég starði
Er nálinni stakk þá svalaði botnlausri svengd
og sælan mín varð að líflegum aldingarði
á svindlmiða komst ég frá helju til himnaríkis
en hrapaði svo í leðju míns botnlausa síkis
 
 
Heróínsprautan sem veitti mér langþráða værð
Vistaði mig á fimm stjörnu hóteli sínu
sem sérrétt á postulínsdiski hún færði mér flærð
og falsaða von og heilun við sérhverri pínu
bráðum mun móðir mín klæðast í svartlita slæðu
sjá mig í kistu er presturinn flytur mér ræðu  


Hringdu ef að þú ert leið

  

Þú sem varst lífsglöð og léttari en vor

ert- löngu orðinn tregablandinn blús

gengur til baka þín framfaraspor

fælin eins og óttaslegin mús

 

Í sálrænum eymslum þú oft sinnis spyrð

er þú horfir yfir farinn veg

"hvernig varð líf mitt að kyrkjandi kyrrð

og kuldinn jafnvel glaðari en ég"

 

Daglega leikur þinn þykistuleik

í þunglyndi með fallegt bros á vör

í lóðþungum doða og lamandi reyk

leitar að en finnur engin svör

 

Veist ekki af þér er stundar þitt starf

stálrunninn sem teinn í vinnuvél

hamingjan ofan í holræsið hvarf

og harmar löngu búið vinaþel 



Glóðið

Fljóð sem varð glóð
og brennandi blóð... minna æða
blíðasta ljóð
sem hafði á ævinni ort
óð sína slóð
uns stjarflynt það stóð... hér án klæða
sem stemmandi hljóð
og perla af fágætri sort

Brá er það sá
að gatan var gjá... sem það æddi
grenjandi þrá
alelda húsþök og torg
ólgandi á
sem deyfandi dá ...um það flæddi
dapurt að sjá
breyttist í nístandi org


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Brynjar Jóhannsson

Höfundur

Brynjar Jóhannsson
Brynjar Jóhannsson
Ég heiti Brynjar jóhannsson og er að gefa út mína fyrstu skáldsögu sem heitir Martraðaprinsinn og er það útgáfufélagið Sarasvati sem gefur mig út.

Tónlist

www.brylli.com

Heimasíðan MÍN..


Tónlistarspilari

- Antymedro- sexual-lokamix

Nýjustu myndböndin

Gróa á Leyti

Kúrekinn

Bloggvinir

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • ...ahaugurnytt
  • DSC_0040
  • Pjakkurinn
  • n556750566 5295516 7415
  • 2cats_543477

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 4
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 184787

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband